Erlent

Flogaveikilyf getur ýtt undir sjálfsvígshugsanir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Media.rd.com

Flogaveikilyfið Topamax getur ýtt undir sjálfsvígshugleiðingar þeirra sem það nota. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna krefst þess að héðan í frá verði umbúðir lyfsins kirfilega merktar aðvörunum þess efnis að notkun þess geti aukið hættuna á því að neytandinn stytti sér aldur eða hugleiði það að minnsta kosti.

Eftirlitsmenn stofnunarinnar gaumgæfðu 199 kannanir sem snerust um 11 mismunandi flogaveikilyf og aukaverkanir þeirra. Niðurstaða þeirra athugana leiddi í ljós svo ekki varð um villst að sjálfsvígshugsanir hjá notendum þessara lyfja jukust um 80 prósent og var þar einkum um að ræða lyf frá framleiðendunum Johnson & Johnson og GlaxoSmithKline.

Russell Katz, yfirmaður geðlyfjaeftirlitsdeildar lyfjaeftirlitsins, segir í viðtali við Bloomberg að læknum beri að fylgjast mjög ítarlega með andlegu ástandi þeirra sjúklinga sem þeir ávísa flogaveikilyfjunum og ávísa þeim alls ekki verði vart við minnstu bresti í sálarlífi sjúklinganna.

Það er skammt stórra högga á milli í lyfjabransanum en Vísir greindi frá því í vor þegar lyfjarisanum Merck var stefnt fyrir að ráða sérfræðinga til að leggja nöfn sín við fræðigreinar í fagtímaritum um verkjalyfið Vioxx þrátt fyrir að þeir hefðu varla komið nálægt rannsóknum á því.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×