Innlent

Tíðinda líklega að vænta í dag - Beint frá blaðamannafundi í dag

Ríkisstjórnin fundaði í Ráðherrabústaðnum.
Ríkisstjórnin fundaði í Ráðherrabústaðnum.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar í dag þar sem reiknað er með að stjórnvöld skýri frá stöðu mála varðandi Icesave-deiluna og kynni aðgerðaáætlun til að verja hag íslenskra heimila. Sýnt verður beint frá fundinum á Stöð 2 og Vísi og honum útvarpað á Bylgjunni.

Jafnvel er búist við að niðurstaða fáist í deilu Íslands við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans í dag en enn er unnið hörðum höndum að málinu.

Geir H. Haarde forsætisráðherra vildi lítið tjá sig um málið eftir ríkisstjórnarfund í morgun en sagði þó að blaðamannafundur yrði klukkan fjögur. Mörg mál væru í vinnslu og hann myndi tjá sig þar. Samfylkingarráðherrar sitja enn á fundi í Ráðherrabústaðnum.

Fram kom í máli Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarmanns utanríkisráðherra, að í dag og í gær hefði verið gríðarlegur þrýstingur á Breta og Hollendinga að leysa málið en hingað til hefur þrýstingurinn fyrst og fremst virst vera á Íslendinga.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur samninganefnd á vegum stjórnvalda unnið að lausn Icesave-deilunnar í Brussel en Frakkar sem formennskuríki ESB hafa haft milligöngu í málinu.

Bein útsending verður frá blaðamannafundinum á Vísi, Stöð 2 og Bylgjunni.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×