Innlent

,,Samningurinn verður kolfelldur"

Magnús Már Guðmundsson skrifar

,,Mín tilfinning er sú að samningurinn verður kolfelldur," segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður félags Ungra lækna, um nýlegan kjarasamning Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið. ,,Það kæmi mér á óvart ef læknar samþykja þessa óáran."

Samningurinn gerir ráð fyrir 4,15 prósent launahækkun sem felur í sér kjaralækkun að mati Ragnars. ,,Það segir sig sjálft ef verðbólga mun nálgast 20 prósent í lok árs að kjaraskerðingin verður upp á rúmlega 15 prósent," segir Ragnar og bætir við að grunnlaun nýútskrifaðra lækna eftir sex ára háskólanám verða 274.000 krónur samkvæmt samningnum.

Ragnar segir dapurlegt að læknar þurfi að treysta á næturvinnu og vinnu á hátíðisdögum til að fá mannsæmandi laun. ,,Ég hélt að samfélagið væri að þróast í átt að fjölskylduvænu samfélagi."

,,Það skýtur skökku við að nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur með fjögurra ára háskólanám að baki er kominn yfir nýútskrifaðan lækni," segir Ragnar. Engu að síður óskar hann hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstéttum allt hið besta í kjarabaráttu þeirra. ,,Ég vona þessar mikilvægu stéttir nái fram öllum þeim kjarabótum sem þær eiga skilið."

Atkvæðagreiðsla um samninginn er hafinn og verða úrslit kosninganna ljós 30. júlí. Um 800 læknar hafa atkvæðisrétt í Læknafélagi Íslands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×