Lífið

Rowling krefst aðgerða í Darfur

JK Rowling er umhugað um ástand barna í Darfur.
JK Rowling er umhugað um ástand barna í Darfur. MYND/Getty Images

Höfundur Harry Potter bókanna, JK Rowling, hefur gengið til liðs við nokkra barnabókahöfunda og krefst meiri verndar fyrir börnin í Darfur héraði í Súdan.

Í opnu bréfi sem undirritað er af 14 barnabókahöfundum, þar á meðal Judy Blume metsöluhöfundi og Michael Morpugo segir: „Það er kominn tími til að breyta sögunni."

„Heimurinn þarf að vakna. Í of langan tíma hefur það leyft þessum börnum að þjást. Stjórnmálamenn okkar þurfa að taka til sinna ráða í Darfur."

Átök hafa geisað í Darfur héraði í Súdan í á fimmta ár. Meira en 200 þúsund manns hafa látist frá því að uppreisnarmenn gripu til vopna árið 2003 samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Tvær milljónir hafa flúið heimili sín.

Í dag er alþjóðlegur dagur fyrir Darfur, þar sem mótmælendur víða um heim krefja alþjóðasamfélagið um að grípa í taumana og binda enda á ástandið í héraðinu.

„Börnin í Darfur báðu ekki um þetta stríð, en búa við aðstæður þar sem skothríð og bergmál byssukúla eru daglegt brauð," segir í bréfinu.

Þar segir líka; „Þau verða að fá að verða börn aftur. Þrátt fyrir daglegar hörmungar, hafa þau samt vonir og drauma."

„Heimurinn verður að grípa inn í núna til að gefa börnunum framtíð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.