Innlent

Samkomulag vegna Icesave og IMF fara fyrir þing

MYND/GVA

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að bæði viljayfirlýsing við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samningar vegna Icesave-deilunnar verði lagðir fyrir Alþingi til samþykktar. Þetta kom fram í umræðum við upphaf þingfundar í dag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti samkomulagið sem gengið var frá í gær sem kveður á um að Íslendingar ábyrgist lágmarkstryggingar á innistæðum fólks á Icesave-reikningunum í samræmi við EES-samninginn. Sagði hún þetta eina erfiðustu milliríkjadeilu sem Íslendingar hefðu staðið í og að hún hefði staðið í vegi fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum. Sagði hún tímann hafa unnið með okkur því hugmyndir Breta í upphafi hafi verið miklu umfangsmeiri en niðurstaðan var.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu að verið væri að gera mikla samninga án þess að umræða hefði farið fram um þá á Alþingi og það ætti einnig við um yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Verið væri að skuldbinda þjóðina til langrar framtíðar og um það ætti að ræða áður en samið yrði.

Vorum beitt ákveðnum þvingunum

Geir H. Haarde sagði í svari sínu að málin yrðu rædd á Alþingi. Allir samningar um fjárskuldbindingar yrðu gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Síðar í dag yrði útbýtt þingsályktunartillögu um samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og viljayfirlýsing vegna þess yrði sem fylgiskjal með tillögunni. Tillaga ríkisstjórnarinnar væri sú að ganga til samstarfs við sjóðinn.

Sagði Geir að hann sæi fyrir sér svipaða málsmeðferð varðandi Icesave og sagði hann að þau mál hefðu verið rædd við formenn stjórnarandstöðuflokkanna fyrir helgi. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki gengið frá samningum um Icesave heldur hefði verið samið um að fara samningaleiðina.

Aðrar leiðir í málinu hefðu einangrað Ísland og hefðu hugsanlega leitt til meira fjárhagstjóns en nú væri verið að lágmarka það. Samkomulagið væri forsenda þess að önnur ríki og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánuðu okkur fé. Sagði Geir að vissulega hefðu Íslendingar verið beittir ákveðnum þvingunum í þessu máli en það væri staðan sem við þyrftum að horfast í augu við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×