Norah Jones segist ekki vita af hverju hún hafi þurfti að kyssa Jude Law meira en 90 sinnum í kvikmyndinni My Blueberry Nights. Það hafi bara verið einn af þessum skrýtnu hlutum í sambandi við þessa fyrstu tilraun hennar á hvíta tjaldinu. Hún hafi þó hugsað; „Hvað er ég að gera að kyssa Jude Law? Hann er Jude ... og ég er ... ég." Þetta sagði söngkonan í viðtali við Chicago Sun-Times.
Nú eru sýningar að hefjast í Bandaríkjunum á þessari frumraun Noruh sem er í leikstjórn hins viðurkennda Wong Kar Wai sem á að baki myndir á borð við In the Mood for Love og Chungking Express.
„Ég vissi ekki einu sinni hver hann var," sagði Norah um Wai. Hún segist hafa fengið skilaboð frá honum í gegnum umboðsmann sinn eftir tónleikaferðalag sumarið 2005. Eftir að horfa á myndina In the Mood for Love ákvað hún að hringja í hann, en hún vissi ekki hvað hann vildi henni og hélt að hann vildi tónlist hennar í myndina.
Jones leikur aðalhlutverkið í myndinni, en henni til stuðnings eru Jude Law, Natalie Portman, David Strathairn og Rachel Weisz. Hún er í hlutverki Elísabetar, ungrar konu í New York sem ferðast yfir Bandaríkin til vesturstrandarinnar. Á leiðinni hittir hún aðrar týndar sálir, pokerspilara (Portman), lögreglumann sem er alki (Strathairn), eiginkonu hans (Weisz) á sama tíma og hún er að skrifa aðdáenda sínum (Law) póstkort en hann varð eftir í New York.
Söngkonunan er 29 ára og segir að reynslan hafi verið taugatrekkjandi í fyrstu, en að lokum mjög gefandi.
Jones hafði aðeins leikið í skólaleikriti einu sinni en Wai bannaði henni að fara í leiklistartíma. Hann sá hana ekki leika fyrr en fyrsta daginn á setti.
„Ég reyni ekki að skilgreina innsæi mitt," sagði leikstjórinn. „Að sumu leiti er það mér hulin ráðgáta."
Jones hefur ekki áform um að leika í fleiri kvikmyndum, en hún segist vilja eyða meiri tíma í húsi sínu í New York og eignast hund.