Innlent

Skynsamlegast að lýsa yfir umsókn í ESB

Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði segir það skynsamlegasta sem ríkisstjórnin geti gert í þeim efnahagsþrengingum sem nú ríkja, sé að lýsa því strax yfir að Íslendingar hyggist sækja um aðild að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu. Ef dýpki á kreppu bankanna komi til greina að þjóðnýta bankanna til að einkavæða þá á nýjan leik.

Þorvaldur Gylfason segir að enn sem komið er eigi íslensku bankarnir eingöngu í lausafjárvanda eins og bankar annars staðar, en ef vandinn breiðist út til undirstaða bankanna, sem nú séu nokkuð traustar, þurfi að grípa til róttækra aðgerða. Hann bendir á að ríkisstjórnir Norðurlandanna hafi leyst til sín ný einkavædda banka upp úr 1990 þar sem þeim hafi ekki haldist vel á nýfengnu frelsi.

Þorvaldur telur að einkavæðing bankanna hér hafi ekki tekist nógu vel. Þeir hafi verið seldir á undirverði eins og Ríkisendurskoðun benti á. Þá hafi ekki hafi verið tryggt dreift eignarhald á bönkunum með aðkomu erlendra fjárfesta eins og stefnt hafi verið að.

Þorvaldur segir að stjórnvöld verði að senda skýr skilaboð út í heim um að þau skilji ástand mála og sé full alvara með að gera það sem þurfi að gera til að bregðast við ástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×