Innlent

Margir vilja Morgunblaðið

Um tólf félög og einstaklingar hafa óskað eftir upplýsingum um stöðu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, með það fyrir augum að kaupa hlut í félaginu. Gert er ráð fyrir að listi yfir áhugasama kaupendur verði birtur opinberlega.

Einn viðmælandi fréttastofu sagði í dag að Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og heldur úti netmiðlinum mbl.is, auk þess að reka prentsmiðju, væri ekki kauphæft félag í því ástandi sem það væri í nú, tap væri mikið og skuldir gríðarlegar. Bankinn þyrfti að gefa mikið eftir til að um raunhæfan möguleika fyrir fjárfesta væri að ræða. Nú er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu og leitað er að nýjum hluthöfum.

Hreinn Loftsson, aðaleigandi útgáfufélagsins Birtíngs, hefur sagt opinberlega að hann hafi áhuga á Morgunblaðinu, en einnig hafa verið nefndir til sögunnar fjárfestar eins og Elfar Aðalsteinsson, barnabarn Alla ríka, Árni Hauksson, sem kenndur er við Húsasmiðjuna, og viðskiptafélagi hans, Hallbjörn Karlsson, en samkvæmt heimildum fréttastofu er aðkoma þeirra á algeru hugmyndastigi. Vilji er til þess að nýr hluthafahópur verði breiður, með aðkomu stjórnenda og starfsmanna Árvakurs.

Og sterkur orðrómur er um að verið sé að mynda hóp hluthafa sem hefði áhuga á að koma að blaðinu til að hafa áhrif á umræðuna um Evrópusambandsaðild.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×