Íslenski boltinn

Heimir Hallgrímsson: Þurfum að styrkja okkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ársins í 1. deild. Mynd/Fótbolti.net
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ársins í 1. deild. Mynd/Fótbolti.net

Heimir Hallgrímsson hefur áhuga á að halda áfram með ÍBV en þó með ákveðnum forsendum. Eyjamenn komust upp í Landsbankadeildina með því að sigra 1. deildina í sumar.

„Það er ekki búið að ganga frá neinu en ég er búinn að segja það að með ákveðnum forsendum þá er ég til í að vera áfram. Mér langar til að vera áfram en við þurfum að breyta nokkrum hlutum svo það sé aðlaðandi að halda áfram," sagði Heimir.

„Við erum ekkert að flýta okkur. Við ætlum að njóta þess aðeins að hafa unnið þessa deild áður en við förum að hafa áhyggjur af næsta ári," sagði Heimir en hann var valinn þjálfari ársins í 1. deild í kjöri þjálfara og fyrirliða deildarinnar sem Fótbolti.net stóð fyrir.

Heimir hefur þjálfað ÍBV síðan 2006. „Ég tók við ÍBV í mjög erfiðri stöðu á sínum tíma og það er líklega heimskulegasta ákvörðun sem ég hef tekið. Það fór djúpt inn í sálina að falla með ÍBV eftir svona langan tíma í efstu deild. Ég ætla ekki að þykjast vera eitthvað stór maður en þetta langar mig ekki til að upplifa aftur," sagði Heimir.

ÍBV átti sex leikmenn í úrvalsliði ársins í 1. deild auk þess að eiga besta þjálfarann og besta leikmanninn. „Ég er mjög hreykinn af strákunum. Þetta uppgjör sýnir að það var enginn ofar öðrum í liðinu og margir sem komu til greina. Liðið er mjög jafnt og erfitt að taka einhvern út," sagði Heimir.

Hann telur að ÍBV þurfi að styrkja sig til að vera samkeppnisfært í úrvalsdeildina. „Mér finnst að við þurfum að bæta við okkur sterkum leikmönnum. Við þurfum leikmenn sem standa upp úr í þessum hópi. Þetta er jafn og góður leikmannahópur en við þurfum sterka leikmenn sem standa upp úr og geta borið þetta uppi," sagði Heimir.

„Við erum vissir um að halda nánast öllum þeim leikmönnum sem við höfum í dag. Það hafa alltaf verið miklar breytingar hjá ÍBV milli ára en vonandi er sú þróun búin," sagði Heimir. Það er þó ekki búið að ganga frá öllum leikmönnum og til dæmis ekki endanlega ljóst með Atla Heimisson sem valinn var leikmaður ársins í 1. deild.

„Það eru lið búin að spyrjast fyrir um Atla. Hann fer í atvinnumennsku en hvenær veit maður ekki. Vonandi fæ ég að halda honum eitt ár í viðbót," sagði Heimir.


Tengdar fréttir

Heimir og Atli valdir bestir

Í dag var opinberað val á úrvalsliðum 1. og 2. deildar karla í knattspyrnu. Það eru þjálfarar og fyrirliðar í deildunum sem kjósa en vefsíðan Fótbolti.net stendur fyrir kjörinu ár hvert.

Atli Heimisson: Vantaði bara gullskóinn

Atli Heimisson hjá ÍBV var valinn leikmaður ársins í 1. deild en þetta var tilkynnt á hófi sem vefsíðan Fótbolti.net stóð fyrir. Atli er ungur sóknarmaður og hefur verið skæður upp við mark andstæðingana í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×