Lífið

Hlutabréf sálarinnar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Verðbréfagúrúinn bróðir Nikanor.
Verðbréfagúrúinn bróðir Nikanor. MYND/Reuters

Ekki er örgrannt um að bók Robins Sharma, Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn, hafi haft einhver áhrif á lífsgæðaþyrsta Vesturlandabúa. Það minnir að minnsta kosti óneitanlega á söguþráð hennar þegar farsæll verðbréfamiðlari á Wall Street skiptir Armani-jakkafötunum og Gucci-skónum út fyrir sandala og kufl og gengur í Tsurnogorski-klaustrið sem er skammt frá Sofia, höfuðborg Búlgaríu.

Þetta er Hristo Mishkov, 32 ára gamall Búlgari sem hefur yfirgefið Wall Street og snúið aftur til fósturjarðarinnar - sem munkur. Í Tsurnogorski-klaustrinu er lögð stund á stranga kaþólska reglu og öllum veraldlegum gæðum hafnað. „Sá sem neytir meira en þess sem hann hefur unnið sér inn sveltir einhvern annan," segir Mishkov sem gengur reyndar undir heitinu bróðir Nikanor í klaustrinu. Hann segir það réttlátt að fólk sem neytir meira en það á skilið fái skell annað slagið og átti sig á því að í lífinu verði menn að gefa og þiggja til jafns, annað skapi ójafnvægi.

Allir geta orðið góðir verðbréfamiðlarar

Nikanor mælir með því að fólk láti krukku með mold standa á borðinu hjá sér til að minna það stöðugt á hvert við stefnum öll og hvaða gæði það séu sem raunverulega skipti máli í lífinu, hin andlegu. „Allir geta orðið góðir verðbréfamiðlarar en heimurinn græðir sáralítið á því," segir munkurinn ráðagóði og bætir því við að leit mannkynsins að hamingju í hinu veraldlega færi því ekkert nema tómleikann.

Bróðir Nikanor er þó ekki alveg frábitinn hinu veraldlega. Eina eign hans fyrir utan kufl og sandala er farsími hans. Þennan síma notar Nikanor til að komast í samband við fyrrum vinnufélaga sína á Wall Street og kaupa þar og selja hlutabréf. Ágóðann notar munkurinn til að kosta endurbyggingu Tsurnogorski-klaustursins sem var notað sem vinnubúðir á sovéttímabilinu og varð af þeim sökum fyrir tjóni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.