Erlent

Ísland á lista með Al Kaida hjá Bretum

Óli Tynes skrifar

Á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins er listi yfir samtök og þjóðlönd sem hafa verið beitt hryðjuverkalögunum. Þar sem listinn er í stafrófsröð tróna þar efst hryðjuverkasamtökin Al Kaida. Talibanar eru spyrtir við þau í efsta sæti.

Með hverju nafni á listanum er stutt úrskýring á því af hverju það er á þessum lista. Al Kæda og Talibanar náttúrlega vegna morða og annarra óhæfuverka.

Hvíta Rússland er þar vegna kosningasvika Lúkashenkos forseta og árása hans á bæði óbreytta borgara og stjórnarandstöðuna.

Súdan er þar vegna þjóðarmorðs á þegnunu og Búrma vegna skelfilegra mannréttindabrota. Landsbankinn er á listanum vegna gruns um að teknar hafi verið ákvarðanir sem væru skaðlegar efnahag Bretlands.

Írak er á listanum til þess að koma höndum yfir aura sem Saddam Hussein og meðreiðarsveinar hans nurluðu saman í gegnum árin og Norður Kórea.....ja, bara vegna þess hvernig Norður-Kórea er.

Og svona er Ísland í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×