Innlent

Metfjöldi útskriftarnema á öllum efri skólastigum 2006-2007

MYND/GVA

Liðlega 3.500 nemendur útskrifuðust með próf á háskólastigi skólaárið 2006-2007 og hafa aldrei verið fleiri á einu skólaári. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofunnar um útskriftir.

Þar segir einnig að nemendunum hafi fjölgað um tæp fimm prósent frá skólaárinu á undan. Af þeim sem þarna útskrifuðust voru rúmlega 600 að ljúka meistaraprófi og fjölgaði þeim um 200 milli ára, eða um nærri 50 prósent. Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Hins vegar luku 10 doktorsprófi á skólaárinu 2006-2007, 4 karlar og 6 konur. Það eru 5 færri en árið á undan.

Þá sýna tölur Hagstofunnar að þetta sama skólaár útskrifuðust rúmlega 5.600 manns af framhaldsskólastigi og nemur fjölgunin nærri 250 nemendum á milli ára. Þar er einnig um met að ræða. Konur voru nokkru fleiri en karlar meðal brautskráðra eða um 54 prósent nemenda.

Þá útskrifuðust um þrjú þúsund úr ýmiss konar starfsnámi á framhaldsskólastigi veturinn 2006-2007 og þar er einnig um met að ræða. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 664 og hafa ekki útskrifast fleiri sveinar á einu skólaári síðan 1998-1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×