Innlent

Steikjandi hiti en mikil gleði í Peking

„Það er mikil og góð stemning í Peking," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra íþróttamála á Íslandi. Hún er þar stödd ásamt íslensku keppendunum. „Ég er að fara hérna út á völlinn. Við erum hérna íþróttaráðherrar allra landanna," segir Þorgerður en setningarathöfn leikanna hefst um klukkan tólf að íslenskum tíma.

Hún segir mikla gleði ríkja á götum Peking. „Og Kínverjarnir eru stoltir af sjálfum sér," segir Þorgerður. Þorgerður segir jafnframt að Íslendingar megi vera stoltir af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, sem hafi staðið sig mjög vel við skipulagningu ferðarinnar undir miklu álagi.

Þorgerður segir að gríðarlega heitt sé í Peking, hitinn sé í kringum 35 gráður. Hún segir jafnframt að loftið í Peking sé augljóslega mengað. „Það er alltaf grámi yfir öllu. Það er eins og það sé skýjað en samt ekki skýjað," segir Þorgerður. Hún býst þó við því mengunin muni ekki hafa áhrif á íþróttamennina. „Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af hitanum," segir hún, en bendir þó á að Íslendingar séu vanir því að keppa í hita.

Það er Ragna Ingólfsdóttir sem keppir fyrst Íslendinganna í badminton á morgun og svo mun Jakob Jóhann Sveinsson keppa í sundi. Á sunnudag verður svo keppt í eftirlætisíþrótt Þorgerðar þegar Íslendingar etja kappi við Rússa í handknattleik.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×