Enski boltinn

Ferguson allt annað en sáttur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ferguson kvartar í fjórða dómaranum.
Ferguson kvartar í fjórða dómaranum.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, lætur dómarann Martin Atkinson heldur betur heyra það eftir tap sinna manna gegn Portsmouth í gær.

„Þetta er algjörlega fáránlegt. Knattspyrnustjórar eru reknir fyrir svona slæma frammistöðu en þessi maður er að fara að dæma aftur um næstu helgi," sagði Ferguson eftir að sínir menn féllu úr leik í FA bikarnum.

Manchester United átti augljóslega að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik og þá fékk markvörðurinn Tomasz Kuszczak rauða spjaldið eftir að hafa komið inn sem varamaður. Vítaspyrna var dæmd og úr henni kom sigurmarkið.

Cristiano Ronaldo er einnig mjög ósáttur við frammistöðu dómarans og segist hafa hlotið litla vernd frá honum. „Eftir það sem gerðist fyrir Eduardo da Silva er ég hræddur við að sýna tækni mína. Dómarinn gegn Portsmouth var virkilega slakur og hafði enga stjórn frá fyrstu mínútu," sagði Ronaldo.

„Diarra hugsaði ekkert um boltann þegar hann tæklaði mig en fékk ekki einu sinni spjald. Þetta var bara grín. Það voru oft á tíðum gróf brot en dómarinn brást ekkert við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×