Innlent

Sýking breiðist út á síldarmiðum

Sýking hefur fundist í síldinni sem veiddist út af Keflavík í gær, eftir að sýkingar varð vart í Breiðafirði fyrir helgi. Sjómenn líkja þessu við áfall, enda getur það tekið stofninn nokkur ár að ná sér, þar sem öll sýkt síld drepst.

Sýkingin við Keflavík er sú sama og fundist hefur í síld á Breiðafirði, en skipin eru hætt að veiða þar vegna þess. Þá er nú staðfest að sýking fannst í síld, sem veiddist í grennd við Vestmannaeyjar í gær þannig að hún er greinilega orðin mjög útbreidd. Sýkt síld er dauðans matur og er það áhyggjuefni hversu hátt hlutfall sýktrar síldar er nú í hverju kasti skipanna.

Þaulreyndur skipstjóri á síldarmiðunum sagði í morgun að aðeins fáist um þriðjungur fyrir síldina til bræðslu miðað við að flaka hana til manneldis í frystiskipunum. Tekjutapið er minna hjá skipum sem landa til vinnslu í landi. En það er ekki það alvarlegasta, að mati skipstjórans, heldur að það getur tekið stofnin nokkur ár að rétta við, eins og dæmin frá Noregi sýndu í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×