Innlent

Álag hjá Vinnumálastofnun

Leitt að biðraðir hafa myndast í atvinnuleysisskráningunni, að sögn Hugrúnar Jóhannesdóttur forstöðumanns.
Leitt að biðraðir hafa myndast í atvinnuleysisskráningunni, að sögn Hugrúnar Jóhannesdóttur forstöðumanns.

Stríður straumur hefur verið inn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar við Engjateig í Reykjavík frá því í byrjun október. Hugrún Jóhannesdóttir, forstöðumaður skrifstofunnar, segir að straumurinn hafi verið afskaplega mikill og álagið líka.

„Okkur finnst erfitt að það komi svo margir, það gat enginn séð það fyrir. Fólk lendir í röð og þarf að bíða, okkur þykir það afar óþægilegt,“ segir Hugrún og bendir á að fólk geti skráð sig atvinnulaust rafrænt að heiman og komið svo með gögnin.

„Álagið er misjafnt eftir dögum en í fjórar til fimm vikur hefur straumurinn verið ansi mikill. Við erum alltaf að bíða eftir að því fari að linna. Það er oftast mest að gera upp úr mánaðamótum því að uppsagnir taka oft gildi fyrsta hvers mánaðar. Við höfum verið mest hissa hvað traffíkin hefur haldist eftir því sem liðið hefur á mánuðinn.“

Hugrún segir að stór hluti þeirra sem koma að skrá sig séu útlendingar og þeir komi fyrst og fremst úr byggingariðnaði sem hafi að stórum hluta verið mannaður útlendingum. Íslendingarnir komi hins vegar úr ýmsum geirum, til dæmis fjármálageiranum og fasteignasölu.

Mörg norsk fyrirtæki hafa auglýst eftir starfsmönnum hér á landi undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×