Innlent

Vill upplýsingar um alþjóðasamninga og fundi vegna Icesave

MYND/GVA

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd, vill fund í nefndinni þar sem lögð verði fram og gerð opinber skjöl og gögn vegna samninga og funda í bankakreppunni.

Þar á meðal eru öll gögn vegna umsóknar um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, samkomulag við Hollendinga sem fjármálaráðherra undirritaði í Washington vegna Icesave-deilunnar, skjöl vegna fundar fjármálaráðherra EES/ESB í Brussel 4. nóvember og skjöl sem tengjast vinnu embættismanna í framhaldinu undir forystu formennskulandsins Frakka ásamt bréfi sem fjármálaráðherra ritaði 6. eða 7. nóvember þar sem Ísland sagði sig frá því vinnuferli sem ákveðið var í lok áðurnefnds fjármálaráðherrafundar. Enn fremur vill Steingrímur lagaálit, ef einhver eru til, hjá íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave-deilunnar og öll önnur skjöl hjá ráðuneytum og opinberum stofnunum sem tengjast þessum málum.

„Þingflokkur VG átelur ríkisstjórnina fyrir að ganga frá samkomulagi um Ice-save reikningana án aðkomu Alþingis og krefst þess að málið verði tekið til lýðræðislegrar afgreiðslu og umræðu fyrir opnum tjöldum. Ríkisstjórnin hefur hundsað löggjafarþingið og haldið upplýsingum frá almenningi í þessu máli sem öðrum. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hvetur stjórnvöld til að breyta starfsháttum sínum og taka tafarlaust upp lýðræðislegar leikreglur, tryggja upplýsingagjöf til almennings og gegnsæi í ákvarðanatöku," segir einnig í tilkynningu frá Vinstri - grænum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×