Innlent

Hefur áhyggjur af ráðstöfun á IMF-láni

Breki Logason skrifar
Ólafur Ísleifsson.
Ólafur Ísleifsson.

Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðbundna. Hann segir það skipta máli að sérstaklega sé tekið fram að íslensk stjórnvöld gefi sjóðnum leyfi til þess að birta þessar upplýsingar. Hann hefur hinsvegar áhyggjur af því að þær 800 milljónir dollara sem eru á leið hingað til lands frá sjóðnum fari í hendurnar á sömu mönnum og ríktu hér í hruninu.

Ólafur segir að löndum sem þiggja aðstoð frá sjóðnum sé ekki skylt að birta gögn sem þessi. „Landið ákveður það sjálft en það er eðlilegt að svo sé gert ekki síst hjá vestrænu lýðræðisríki," segir Ólafur sem segir þó margt vanta inn í heildarmyndina.

„Það vantar til dæmis forsendurnar fyrir þessari gengisstefnu sem á að reka hérna. Einnig hvernig þeir fá út þessa 6 milljarða sem okkur vantar. Ég tók eftir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir upplýsti í gær að þessir fjórir milljarðar sem nú vantar uppá komi frá Norðurlöndunum," segir Ólafur.

Viljayfirlýsingin er birt í heild sinni á dv.is í dag en þar kemur m.a. fram að kanna eigi hvort stjórnendur og helstu hluthafar bankanna hafi gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum. Þetta eigi hinsvegar ekki við Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitið eða aðrar opinberar stofnanir.

Ólafur segir að sjálfsagt megi ræða það fram og tilbaka en telur ekki eðlilegt að Íslendingar geri það að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Menn hljóta hinsvegar að hafa manndóm í sér til þess að gera það sjálfir að eigin frumkvæði."

Ólafur segir að komið hafi fram í máli forstjóra sjóðsins að umsókn Íslendinga verði tekin fyrir á miðvikudaginn. Í kjölfarið ættu 800 milljónir dollara að koma inn í kerfið strax.

„Það veldur hinsvegar áhyggjum að sömu mennirnir og ríktu hér í hruninu munu taka við þessu fé og ráðstafa því, það hlýtur að vera okkur og umheiminum alvarlegt umhugsunarefni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×