Innlent

Reyndi bankaeftirlitsmaðurinn er finnskur

Yfirvöld hafa ráðið fyrrum forstöðumann finnska fjármálaeftirlitsins til þess að endurskoða regluverkið í bankakerfinu.
Yfirvöld hafa ráðið fyrrum forstöðumann finnska fjármálaeftirlitsins til þess að endurskoða regluverkið í bankakerfinu.

Eins og Vísir sagði frá fyrr í dag hefur Ásmundur Stefánsson fyrrum ríkissáttasemjari verið ráðinn í stöðu virts bankasérfræðings og á að sjá um endurreisn bankanna.

Þetta kemur fram í fimmta tölulið viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Viljayfirlýsingin birtist í heild sinni á dv.is í dag. Þar kemur fram í tíunda tölulið yfirlýsingarinnar að reyndur bankaeftirlitsmaður hafi verið ráðinn til þess að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar.

Þar sem Ásmundur er orðinn formaður bankaráðs Landsbankans mun hann ekki koma að þessum málum. Samkvæmt upplýsingum frá Þorfinni Ómarssyni upplýsingafulltrúa viðskiptaráðuneytisins hefur finnskur sérfræðingur verið ráðinn í stöðu reynda bankaeftirlitsmannsins. Sá mun vera fyrrum forstöðumaður finnska fjármálaeftirlitsins.

Hér að neðan má sjá 10. tölulið viljayfirlýsingarinnar og lýsingu á starfi reynda bankaeftirlitsmannsins:

„Í framhaldinu munum við endurskoða allt regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni.

Við munum ráða reyndan bankaeftirlitsmann til að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar. Þessi ráðgjafi mun einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstaka áhættur, krosseignatengsl og hagsmunaleg sjálfstæði eigenda og stjórnenda.

Fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafa í yfirteknu bönkunum sem gerst hafa sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga ekki að gegna sambærilegum störfum næstu þrjú árin. Mat þetta, sem gert verður opinbert, á að liggja fyrir í lok mars 2009 (mat á skilvirkni). Við munum ræða sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“








Tengdar fréttir

Ásmundur er virti bankasérfræðingurinn

Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur fram að virtur bankasérfræðingur hafi verið skipaður til að stýra endurskipulagningu bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×