Innlent

Íslenskuverðlaun menntaráðs veitt grunnskólanemum

Íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur voru afhent, annað árið í röð, á degi íslenskrar tungu hinn 16. nóvember. Rúmlega eitt hundrað nemendur í grunnskólum Reykjavíkur fengu verðlaun að þessu sinni, rúmlega 50 einstaklingar og 8 hópar.

Í tilkynningu um málið segir að mikil hátíðarstemning og húsfyllir var í Ráðhúsi Reykjavíkur við afhendingu verðlaunanna, en þangað mættu nemendur ásamt foreldrum sínum, kennurum og skólastjórnendum.

Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs bauð gesti velkomna og flutti ávarp. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem er verndari verðlaunanna, flutti ávarp þar sem hún nefndi meðal annars mikilvægi þess að við stöndum vörð um íslenska tungu. Að því búnu afhenti hún verðlaunin ásamt þeim Mörtu Guðjónsdóttur, formanni nefndar um verðlaunin og Oddnýju Sturludóttur fulltrúa í nefndinni.

Nemendur úr Fellaskóla fluttu verkið Eldgamla Ísafold, ljóð eftir Þórarin Eldjárn og lag eftir stjórnandann Guðna Franzson. Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, nemandi í Hagaskóla, fór með ljóð og að lokum voru nemendur úr Vesturbæjarskóla með þjóðlegt tónlistaratriði þar sem þeir spiluðu á tréspil og fleiri hljóðfæri, sungu og fluttu bæði þjóðlög og rímur. Stjórnandi þeirra er Nanna Hlíf Ingvadóttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×