Innlent

Gefa lítið fyrir hugmyndir um einhliða upptöku nýrrar myntar

MYND/Stöð 2

Ráðamenn og stjórnarandstæðingar gefa lítið fyrir hugmyndir um einhliða upptöku nýrrar myntar hér á landi, að minnsta kosti að svo stöddu.

Ársæll Valfells, lektor í viðskiptafræði, og Heiðar Már Guðjónsson, framkvæmdastjóra Novators, hafa sagt að einhliða upptaka nýrrar myntar hér á landi væri þjóðinni ódýrari kostur en að verja íslensku krónuna. Nota mætti núverandi gjaldeyrisforða Seðlabankans til að skipta um mynt og það væri einfaldari aðgerð en myntbreytingin var í byrjun níunda áratugarins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sjálfsagt sé að ræða þessi mál en það þýði þó ekki að horfið verði frá því að fá nýtt gengi á krónuna. Það þurfi að fá erlendan gjaldeyri inn í landið.

 

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, þeir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri-grænna, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segja að Íslendingar þurfi að sætta sig við krónuna á meðan þeir vinni sig út úr ástandinu.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra vill að Íslendingar kasti krónunni. Hann vill þó ekki að það sé gert með einhliða upptöku evrunnar heldur að Íslendingar gangi í Evrópusambandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×