Erlent

Námsmenn kveiktu Kaliforníuelda

MYND/AP

Námsmenn kveiktu eldana sem hafa brennt fleiri hundruð hús til kaldra kola í Kaliforníu undanfarna daga.

Vísbendingar frá ónafngreindum heimildarmönnum leiddu lögregluna í Kaliforníu að hópi tíu námsmanna á aldrinum 18 til 22 ára. Þeir höfðu síðastliðinn fimmtudag kveikt varðeld í grennd við yfirgefið hús.

Lögreglan telur að það hafi verið óviljaverk að eldurinn breiddist út. Námsmennirnir hafi farið frá honum um nóttina og talið sig vera búna að slökkva allar glæður. Þótt þetta hafi verið óviljaverk verið málið sent til saksóknara sem mun ákveða hvort gefin verður út ákæra.

Eldarnir hafa nú verið hamdir að mestu leyti en tjónið er þegar orðið gífurlegt. Mörg húsin sem brunnu voru milljóna dollara virði.  Ekki er vitað um manntjón en margir brenndust þegar þeir flúðu heimili sín á síðustu stundu.

Bæði Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, og Bush forseti hafa sagt að þeir sem misstu heimili sín fái aðstoð við að endurreisa þau.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×