Innlent

Nýr Jötunn kominn til Faxaflóahafna

Jötunn, nýr lóðs- og dráttarbátur Faxaflóahafna sigldi inn í Gömlu höfnina í Reykjavík í gær. Nýr Jötunn leysir eldri Jötunn af hólmi, en sá bátur var fyrir um ári síðan seldur til Þorlákshafnar.

Nýi Jötunn var byggður í Hollandi hjá Damen Shipyards, en Faxaflóahafnir sf eiga fyrir þrjá lóðs- og dráttarbáta, sem allir eru af Damen gerð.

Fjallað er um komu Jötuns á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að nýr Jötunn sé með 24 tonna togkrafti og bætir verulega öryggi skipa sem koma til Faxaflóahafna og nágrannahafna og þurfa á þjónustu dráttarbáta að halda. Heildakostnaður við smíði bátsins var 2.4 milljón evrur sem svarar til um 350 milljóna kr.

Allir lóðs - og dráttarbátar Faxaflóahafna sf. eru af "Damen-fjölskyldunni" - Magni, sem er með 40 tonna togkraft, Jötunn, sem er með 24 tonna togkraft, Leynir, sem er með 14 tonna togkraft og Þjótur sem er með 6 tonna togkraft.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×