Innlent

„Sameignin er gjörónýt“

Björk Felixdóttir var vakin af reykskynjurunum á stigagangi Vesturbergs 100 en hún er á meðal íbúa í blokkinni þar sem eldur kom upp í nótt. Hún segir þetta óskemmtilega lífsreynslu að lenda í en er þakklát fyrir að ekki fór ver.

„Ég vaknaði við að skynjararnir fóru í gang og mjög stuttu síðar var slökkviliðið komið á vettvang," segir Björk í samtali við Vísi. Að hennar sögn var ekki mikill reykur sem fór inn í íbúðirnar en að hann hafi verið þeim mun meiri inni á sameigninni. Eldurinn kom upp í geymslu í kjallara hússins.

„Við fórum öll út á svalir og slökkviliðsmennirnir sóttu okkur þangað," segir Björk og bætir því við að slökkviliðsmennirnir hafi staðið sig afar vel. „Það stóðu sig allir mjög vel og íbúarnir héldu ró sinni. Þeir komu með strætó fyrir okkur þar sem við gátum hafst við fyrst eftir að þetta kom upp." Björk er komin í íbúð sína á ný enda voru skemmdir af völdum reyksins minni en talið var í fyrstu.

„Sameignin er hins vegar gjörónýt en fulltrúi tryggingafélagsins kom í nótt og sagði okkur að við værum vel tryggð fyrir þessu," segir Björk Felixdóttir, íbúi í Vesturbergi 100.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×