Innlent

Manni bjargað úr sjónum við Kirkjusand - annar stunginn í miðbænum

Lögreglan fékk símtal frá skokkara við Kirkjusand snemma í morgun. Tilkynnti hann um mann á miðjum aldri sem kominn var út í sjó. Þegar lögregla kom á staðinn var vatnið komið upp að mitti. Honum var komið undir læknishendur.

Þá var átján ára piltur stunginn í Bankastræti um hálf fimm leytið í nótt. Maður á fertugsaldri var handtekinn en pilturinn er ekki talinn í lífshættu. Ekki er vitað um aðdraganda hnífsstungunnar.

Vísir sagði frá hörðum árekstri á Hringbraut við Njarðargötu um hálf átta leytið í gærkvöldi. Strætisvagn keyrði aftan á fólksbíl sem var að fá rafmagnsstart hjá öðrum bíl. Þrír voru fluttir á slysadeild, þar af einn sem varð á milli bílanna sem voru að gefa rafmagnsstartið. Sá er ekki talinn vera í lífshættu, en alvarlega slasaður.

Nóttin var annars erilsöm hjá lögreglunni og voru sjö ökumenn kærðir fyrir meinta ölvun við akstur. Þá voru einnig sjö líkamsárásir kærðar í miðbænum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×