Lífið

Leoncie ósátt við stuðningsleysi ríkisstjórnarinnar

„Það er ekki nægur peningur í heiminum til að fá mig til að vera berbrjósta í tónlistamyndböndunum mínum," segir söngkonan Leoncie. Hún er ekki allskostar sátt við frétt sem birtist á Vísi í síðustu viku þar sem haft er eftir vefútgáfu New York Entertainment að eitt myndbanda hennar hefði verið fjarlægt af YouTube.com fyrir þær sakir að hún hefði berað brjóst sín í því. Þá var haft eftir blaðinu að Leoncie líki sér við Madonnu vegna eigin kynþokka, margbreytilegs hárstíls og hressilegra tónlistamyndbanda sinna.

Leoncie segir það eitt sameiginlegt með sér og Madonnu að þeim sé báðum alveg sama um hvað öfundsjúkum fávitum finnist um sig. Margir íslendingar séu að farast úr öfundsýki vegna tónlistar hennar og myndbanda. „Þeir þola ekki að ég semji betri íslensk lög en þeir gera," segir söngkonan. „Það er þeirra vandamál."

Leoncie hefur þó um margt annað að hugsa en neikvæða umfjöllun. Hún segir að heilmikið sé að gerast í tónlistarferlinum, og hún sé ánægð í Englandi, þar sem betur sé farið með hana en hér heima.

„Íslenska lögreglan, Dómsmálaruslið og allt þetta ömurlega kerfi á það skilið að því sé sturtað niður í klósettið. Lögreglan og fólkið í Englandi er frábært," segir Leoncie, sem finnst hún ekki hafa verið metin að verðleikum á Íslandi. „Íslenska ríkisstjórnin styður mig ekki eins og allt þetta fólk sem er öfundssjúkt út í mig. Sigur rós, Björk og aðrar hæfileikalausar blöðrur sem geta ekki gert neitt án stuðnings frá ríkinu."

Myndbönd Leoncie má sjá á notendasvæði hennar á YouTube.com








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.