Innlent

Kastljós sýknað af ásökunum um ærumeiðingar

Páll Magnússon útvarpsstjóri og ritstjórn Kastljóss voru sýknuð, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í dag í meiðyrðamáli sem Lucia Celeste Molina Sierra, tengdadóttir Jónínu Bjartmarz, og Birnir Orri Pétursson sonur Jónínu höfðuðu gegn þeim.

Birnir Orri og Lucia Celeste fóru fram á 3,5 milljónir króna í miskabætur frá Páli Magnússyni útvarpsstjóra og Kastljósfólkinu Helga Seljan, Þórhalli Gunnarssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Sigmari Guðmundssyni vegna ærumeiðinga.

Kastljós fjallaði um það í lok apríl á síðasta ári að Lucia hefði fengið skjóta afgreiðslu á umsókn um ríkisborgararétt hjá Alþingi en Jónína sagðist ekki hafa komið nálægt afgreiðslu umsóknarinnar. Lucia fór fram á 2,5 milljónir króna en Birnir eina vegna umfjöllunarinnar.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að ekki verði dregið í efa að málið hafi haft fréttagildi og því eðlilegt að um það væri fjallað í fjölmiðlum. Hins vegar verði fallist á að ekki hafi verið vandað nægilega til undirbúnings umfjöllunar um málið í upphafi og gætt hafi ónákvæmni og að sumu leyti ekki farið rétt með staðreyndir um málsmeðferð varðandi umsóknir um ríkisfang. Leiðréttingar hafi átt sér stað er á umfjöllunina leið og verði ekki talið að umfjöllunin að þessu leyti hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnenda.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×