Erlent

Mikið mannfall í fangauppreisn í Mexíkó

Að minnsta kosti tuttugu og einn fangi lét lífið í innbyrðis átökum glæpagengja í fangelsi í Mexíkó í nótt.

Á fimmta tug manna hefur látið lífið í fangauppreisnum í Mexíkó á innan við einum mánuði. Opinberrar rannsóknar hefur verið krafist á aðbúnaði og aðstöðu í fangelsum landsins.

Reiðir ættingjar söfnuðust í dag saman við fangelsið í bænum Reynosa sem er skammt frá bandarísku landamærunum. Þeir kröfðust þess að fá að vita um örlög ástvina sinna, en auk þeirra sem létu lífið í bardögunum í nótt eru fjölmargir slasaðir.

Fangelsisstjórnin segir að vera sé að rannsaka hvað olli því að bardagarnir brutust út. Svo virðist sem tvær glæpaklíkur hafi tekist á, en ekki er vitað hvað varð til þess að uppúr sauð.

Í síðasta mánuði kom tvisvar til bardaga í öðru fangelsi í landamæraborginni Tijuana sem er gegnt San Diego í Bandaríkjunum. Í þeim átökum létu tuttugu og þrír lífið, þar á meðal tveir Bandaríkjamenn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×