Innlent

Stjórnarflokkar reyna að ná saman í stórum málum

MYND/GVA

Stjórnarflokkarnir freista þess að ná saman um stefnumörkun varðandi yfirstjórn Seðlabanka Íslands, Evrópusambandsaðild og upptöku evru. Það virðist vera dagaspursmál um hvort flokkarnir nái saman, en meiningarmunur er djúpstæður í þessum veigamiklu málefnum.

Stíf fundahöld standa nú yfir hjá Samfylkingunn og Sjálfstæðisflokknum, meðal annars um endurmat á peningamálastefnunni, Evrópumálum og stjórnarsáttmálanum sem flokkarnir gerðu með sér við upphaf samstarfs síns. Telja má víst að náist ekki að leysa þann mikla skoðanamun sem fyrir hendi er um þessi mál gæti það orðið stjórninni að falli.

Andrúmsloftið á fundum stjórnarflokkanna er, samkvæmt heimildum fréttastofu, vinsamlegt en svo virðist sem það skýrist í dag eða á næstu dögum hvort samstaða náist um endurmat á þessum veigamiklu málefnum.

Varðandi Evrópumál þá hafa forystumenn Samfylkingarinnar ítrekað lýst yfir stuðningi við inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru og nú síðast í gær sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins, að ákvörðun um aðild að ESB væri eina leiðin út úr efnahagskreppunni.

Sjálfstæðismenn hafa síðustu vikur opnað nokkuð á umræðuna en stíga þó mjög varlega til jarðar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur reyndar talað opinskátt um Evrópumálin og jafnvel þótt hún hafi undirliggjandi stuðning margra flokkssystkina sinna þá hefur málflutningur hennar verið í óþökk arms innan flokksins sem kenndur er við Davíðsarfleifðina.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur farið mun hægar í sakirnar en varaformaðurinn. Hann hefur ekki útilokað Evrópuumræðuna, en segir aðildarviðræður ekki á dagskrá.

Og þá er það eldfima umræðan um hvort Davíð Oddsson eigi að vera eða fara úr Seðlabankanum en einarður stuðningur Geirs við Davíð stendur ekki aðeins honum fyrir þrifum þessa dagana heldur virðist samstarf stjórnarflokkanna einnig farið velta á því hvort stefnubreyting verði í málinu.

Reynt verður til þrautar, samkvæmt heimildum, að finna leið til að stjórnarflokkarnir geti unnið áfram saman en staða mála er afar viðkvæm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×