Lífið

Stærsta stjarna listahátíðar mætt í Borgarleikhúsið.

Sýningin Ambra verður frumsýnd á Listahátíð þann 23. maí næstkomandi. Verkið er samstarfsverkefni tveggja helstu nútímadansflokka Norðurlanda, Íslenska Dansflokksins og Carte Blanche frá Bergen.

Tuttugu dansarar taka þátt í sýningunni, en að öðrum ólöstuðum er stærsta stjarnan líklega Doddi - tólf metra langur hnúfubakur. Doddi var um fertugt og vóg um þrjátíu tonn þegar kom á land í Höfn í Hornafirði, lenti á grynningum og varð sér að voða. Ferli Dodda lauk þó ekki við andlátið, því beinagrind hans mun prýða stóra sviðið í Borgarleikhúsinu meðan á flutningi verksins stendur.

Hugmyndin að verkinu er sprottin frá því þegar bláhval rak á strönd Jan Mayen árið 2001. Í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar segir að höfundar hennar vilji nota sögu hvalsins, þessa ótrúlega dýrs sem syndir um heimsins höf áratugum saman, virðist ætíð vita nákvæmlega hvert hann á að fara og gefur frá sér hljóð á „tungumáli" sem er einstakt og vísindamenn kappkosta enn að skilja. „Sýningin er óður til hvalanna, framleidd af listafólki sem kemur frá löndum sem enn stunda hvalveiðar þrátt fyrir víðtæk mótmæli um heim allan. Verkið fjallar um samskipti á milli þjóða og ieinstaklinga, ferðir okkar, leyndardóma og þrár."

Ambra verður sýnt þrisvar í Reykjavík, en viku seinna fer verkið til Bergen, þar sem það verður sýnt tvisvar í Grieghallen.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.