Innlent

Engin lög sett eða afnumin til að flýta fyrir Bakkaálveri

MYND/GVA
Ríkisstjórnin hyggst ekki setja sérstök lög eða afnema lög til þess að flýta fyrir byggingu álvers á Bakka sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Flokksbróðir hans, Mörður Árnason, spurði ráðherra út í málið og vísaði til auglýsingar frá forsvarsmönnum sveitarfélaga, stéttarfélaga og atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi í dagblöðum í dag. Þar er ríkisstjórnin hvött til að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hægt verði að taka ákvörðun um byggingu álversins sem fyrst. Spurði Mörður hvort til stæði að beita neyðarlögum vegna framkvæmda við álver á Bakka og hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við ákallinu að norðan.

Össur Skarphéðinsson svaraði því til að brugðist yrði við því með skilningi. Ríkisstjórnin hefði lýst yfir að hún styddi álver á Bakka og hann hefði sjálfur sagt að hann myndi gera sitt til þess að flýta framkvæmdum. Hins vegar væri ekki ætlunin að setja sérstök lög vegna þessa og þá kæmi það ekki til greina að afnema lög um umhverfismat eins og lagt hefði verið til.

Álveri á Bakka væri í eðlilegum farvegi. Rannsóknarboranir vegna orkuöflunar væru í umhverfismati og þær gætu vonandi farið fram næsta sumar. Ríkisstjórnin hefði gert sitt til þess að greiða úr ákveðnum misskilningi varðandi Bakka.

Mörður fagnaði orðum ráðherra en gagnrýndi þann talkór sem lagt hefði til að svarið við ástandinu væri að varpa til hliðar lögum og reglugerðum. Sagði hann grægði, aðhaldsleysi og óstjórn í fjármálakerfinu hafa skapað núverandi ástand en því yrði ekki bjargað með sömu meðulum gagnvart náttúru landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×