Innlent

,,Stúdentatíð í kreppuhríð"

Björg Magnúsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Björg Magnúsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

,,Það er nauðsynlegt að varpa ljósi á stúdenta og ungt íslenskt fólk í núverandi árferði því margir eru áhyggjufullir," segir Björg Magnúsdóttir formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Stúdentaráð Háskóla Íslands bregst við fjármálakreppunni með sínum bestu vopnum sem að mati ráðsins eru hugmyndir, opin umræða og stefnumótun framtíðarinnar. Dagana 5. til 7. nóvember stendur Stúdentaráð fyrir röð funda um núverandi stöðu stúdenta og framtíðarhorfur undir yfirskriftinni ,,Stúdentatíð í krepputíð."

Björg segir að kreppan komi niður á stúdentum líkt og landsmönnum öllum. Sumir fari afar illa út úr núverandi stöðu á meðan að aðrir sigli lygnan sjó.

,,Aftur á móti liggur fyrir að um þessar mundir eru stúdentar að gera það upp við sig hvort ár þeirra sé best borgið um borð í íslensku þjóðarskútunni eða hvort best sé að leita á aðrar strendur hvað varðar framtíðarbúsetu," segir Björg.

Björg bindur miklar vonir við fundaröðina. Á miðvikudaginn verða málefni LÍN til umræðu sem og hækkandi stýrivextir og efnahagsástandið almennt. Gunnar I. Birgisson, stjórnarformaður LÍN og bæjarstjóri Kópavogs, Lilja Mósesdóttir doktor í hagfræði og Pétur Markan lánasjóðsfulltrúi SHÍ verða með framsöguerindi.

Stúdentar og atvinna verður þema fundarins á fimmtudaginn. Mikilvægi Háskóla Íslands og atvinnuhorfur nýútskrifaðra stúdenta verður til umræðu. Ásgeir Runólfsson nýútskrifaður verkfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Landsbankans gamla,

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður Bandalags háskólamanna og

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ flytja erindi.

Á fundinum á föstudaginn verður horft til framtíðar og spáð í spilin með Björgu Evu Erlendsdóttur fjölmiðlakona, Gunnari Ólafi Haraldssyni forstöðumanni Hagfræðistofnunar og Sigríði Þorgeirsdóttur heimspekidósent sem öll verða með framsögur.

Fundirnir hefjast klukkan 12 en staðsetning þeirra er breytileg. Á miðvikudaginn og föstudaginn funda stúdentar í stofu 101 í Lögbergi en fimmtudaginn í stofu 104 á Háskólatorgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×