Lífið

Vill lög um skotleyfi á efnamenn

„Þetta er gamansöm hugleiðing um fjármál íslendinga, peningahyggjuna sem hefur tröllriðið landanum undanfarin ár," segir Bjarni Haukur Þórsson, sem frumsýnir um helgina einleikinn „Hvers virði er ég". Bjarni segir verkið þó ekki hefðbundinn einleik, en vill frekar lýsa því sem blöndu af leikhúsi, „standuppi" og fyrirlestri.

Aðspurður segir Bjarni ýmsa þekkta menn fá á baukinn í sýningunni. „Það ættu eiginlega að vera lög að um leið og þú átt milljarð á bankabók, þá ertu kominn með skotleyfi á þig. Þú verður að vera tilbúinn í það að það sé gert grín að þér."

Hugmyndina að verkinu fékk Bjarni þegar hann var að skemmta í samkvæmi. „Það var meiri peningalykt í þessu partýi en í prentsmiðju seðlabankans, allir áttu einkaþotu og þriðji hver banka. Einn ríkisbubbanna í þessu boði spurði mig einmitt hvers virði ég væri," segir Bjarni, sem fór þá að velta spurningunni fyrir sér.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að lífsfyllingin snýst ekki um stöðuna á reikningnum," segir Bjarni, en þverneitar að gefa meira upp, „Þú verður bara að sjá verkið," segir Bjarni að lokum.

Sigurður Sigurjónsson leikstýrir verkinu, sem verður frumsýnt í Salnum í Kópavogi á föstudaginn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.