Innlent

Sjálfstæðisþingmaður vill afsögn seðlabankastjóra og bankaráðs

„Nú ríkir hvorki traust né trúnaður gagnvart seðlabankastjóra né bankaráði Seðlabankans og þess vegna ættu allir er þar sitja að víkja svo hægt verði að byggja upp traust og trúnað á ný," ritar Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í grein í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni „Hingað og ekki lengra."

Hún segir að endurskoða þurfi peningamálastefnuna, og að Íslendingar eigi um tvo kosti að velja í gjaldeyrismálum. Að byggja upp krónuna eða taka upp evru. „Krónan og peningamálastefnan hafa beðið hnekki, eru rúnar trausti innanlands sem utan," segir Ragnheiður. Hún telur æði langsótt að hægt verði að endurvekja traust á krónunni. „Alþjóðatengslum þarf að ná á ný og alþjóðleg viðskipti verða stunduð í framtíiðinni og ég hygg að fáir hafi trú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli í slíkum viðskiptum," segir Ragnheiður, sem telur að þingheimur þurfi einnig að endurskoða störf sín.

„Traust og trúnaður ríkir ekki milli þings og þjóðar, það er kristaltært," Ragnheiður.

Ragnheiður segir reiði í garð forvígismanna Sjálfstæðisflokksins skiljanlega. Flokkurinn hafa á sautján árum sínum í ríkisstjórn hafa staðið að mörgum framfarabreytingum. Íslenskt efnahagslíf hafi tekið stakkaskiptum, fyrirtæki og bankakerfið blómstrað. Nú blasi annar veruleiki við og forystumönnum flokksins sé kennt um þær ófarir sem þjóðin hefur ratað í. „Það er eðlilegt og við sjálfstæðismenn verðum að líta okkur nær, skoða frelsið og breytingarferli því tengt og sérstaklega eftirlitið sem brást."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×