Enski boltinn

Meiri forföll í vörn United

NordcPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United er eflaust farinn að svitna yfir varnarmönnum sínum eftir að Rio Ferdinand haltraði af velli í leik liðsins gegn Middlesbrough í gær.

Ferguson verður þannig að öllum líkindum án sinna bestu miðvarða í leiknum gegn Roma á miðvikudaginn.

United á erfiða leiki gegn Arsenal og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á æstunni og þar gæti liðinu reynst dýrt að vera án Ferdinand og Nemanja Vidic.

Ferdinand klæddist sérstöku hlífðarstígvéli eftir leikinn gegn Boro en Ferguson vonast til að meiðsli hans séu ekki alvarleg.

"Vonandi eru þetta ekki alvarleg meiðsli en Rio var búinn að haltra of lengi. Það er vissulega hættulegt að láta menn halda áfram að spila þegar þeir eru meiddir, en hann var heldur ekki að skila sínu vegna meiðslanna," sagði Ferdinand.

Ferguson var hinsvegar mjög ánægður með innkomu Gerard Pique, sem fyrir vikið gæti fengið að spreyta sig gegn Roma í vikunni.

"Pique kom inn og stóð sig frábærlega og hann hjálpaði okkur mikið," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×