Íslenski boltinn

Hrefna Huld: Meiri alvara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrirliði KR.
Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrirliði KR.
Hrefna Huld Jóhannesdóttir, fyrirliði KR, segir að meiri alvara hafi ríkt á þessu undirbúningstímabili en fyrra.

KR var í dag spáð sigri í Landsbankadeild kvenna en liðið hafði fimm stiga forystu á Val í könnuninni.

„Þessi vetur hefur verið mjög fínn. Við höfum sloppið við meiðsli og verið miklu einbeittari en síðasta vetur. Það ríkir meiri alvara á bak við þetta,“ sagði Hrefna í samtali við Vísi í dag.

Sem fyrr segir er KR og Val spáð efstu tveimur sætunum í deildinni en liðin höfðu mikla yfirburði í fyrra. Leikir liðanna á mótinu voru í raun úrslitaleikir mótsins.

Hrefna býst þó ekki við að það verði aftur upp á teningnum í ár. „Ég held að Breiðablik eigi eftir að verða mun sterkari en í fyrra. Blikar hafa náð fínum úrslitum á undirbúningstímabilnu og eru komnir með góðan þjálfara (Vöndu Sigurgeirsdóttur).“

„Það er líka erfitt að spila við Stjörnuna og Keflavík. Við höfum gert jafntefli við þessi lið og jafnvel tapað fyrir þeim. Þetta eru ekki leikir sem maður getur bara mætt í og rúllað í gegnum.“

Hún segir að það ríkir mikil spenna í KR-ingum fyrir mótið. „Reyndar er helmingurinn af liðinu í Finnlandi og svo koma fljótlega tveir útileikir gegn Keflavík og Þór/KA. Þetta verður því smá reisa fyrir þær.“

Valur hefur reyndar keppni í Egilshöllinni á mánudaginn gegn Þór/KA en það verður opnunarleikur mótsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×