Enski boltinn

Dómarinn ætlar að endurmeta rauða spjaldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Styles sýnir Beye rauða spjaldið í gær.
Styles sýnir Beye rauða spjaldið í gær. Nordic Photos / Getty Images
Rob Styles knattspyrnudómari ætlar að skoða aftur atvikið sem varð til þess að Habib Beye, leikmaður Newcastle, var rekinn af velli í leiknum gegn Manchester City í gærkvöldi.

Styles vísaði Beye af velli eftir að hafa dæmt hann brotlegan fyrir tæklingu á Robinho. Joe Kinnear, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að hann hafi rætt við Styles um brotið eftir leik.

„Hann er til í að skoða atvikið aftur og hann ætlar að láta mig vita eftir fjóra eða fimm daga," sagði Kinnear. „Það var erfitt að meta þetta brot en dómarar gera mistök eins og við hin."

Kinnear vonast til að Styles dragi rauða spjaldið til baka svo hann missi ekki af leik Newcastle og Sunderland um helgina. „Þetta er strangheiðarlegur strákur. Hann sór að hann hafi náð í boltann fyrst. Sem betur fer sýna sjónvarpsupptökur að hann náði boltanum fyrst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×