Erlent

Talibanar funda með afgönskum stjórnvöldum

Fulltrúar afganskra stjórnvalda munu á næstunni eiga fund með fyrrverandi liðsmönnum talibana í Sádi-Arabíu. Tilgangurinn er að reyna að binda enda á skæruhernað talibana.

Núverandi leiðtogar talibana hafa sagt að þeir séu ekki tilbúnir til neinna viðræðna meðan erlendir hermenn séu í Afganistan. Þar eru nú um 70 þúsund erlendir hermenn, þar af 32 þúsund frá Bandaríkjunum.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, segir að sú krafa sé óaðgengileg. Hann hefur hins vegar ítrekað boð sitt um að funda með klerkinum Ómari sem er æðstur talibana og mjög handgenginn al-Qaida. Ómar hefur áður hafnað því boði.

En talibanar skiptast í nokkuð margar fylkingar. Fréttaskýrendur segja að ríkisstjórnin og vestrænir bandamenn hennar vonist til þess að geta átt samvinnu við hina hófsamari meðal þeirra og kannski einstaka stríðsherra og einangra þannig harðlínuöflin og al-Qaida.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í síðasta mánuði að þeir væru reiðubúnir að sættast við talibana ef stjórnvöld í Afganistan nái samkomulagi við þá. Hins vegar komi engir samningar við al-Qaida til greina.

Barack Obama, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur sömuleiðis sagt að hann sé reiðubúinn til viðræðna við hófsamari talibana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×