Innlent

Þingið upp við vegg

Meðferð og afgreiðsla Alþingis á frumvarpinu um gjaldeyrishöft var aðeins formsins vegna og að nafninu til. Þingmönnum var gert ljóst að höftin væru hluti af samkomulagi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og því eins gott að frumvarpið yrði að lögum.

Stoð laganna er í nítjánda lið samkomulagsins. Þar segir að stjórnvöld séu reiðubúin að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti. Er aðgerðin sögð nauðsynleg enda þótt hún hafi talsverð neikvæð áhrif.

Breytingarnar sem gerðar voru á lögum um gjaldeyrismál í fyrrinótt voru tvíþættar. Ná þær annars vegar til refsikafla laganna og hins vegar til heimilda Seðlabankans til að ákveða reglur um höft á meðferð gjaldeyris. Skal Seðlabankinn gefa út reglur sínar að fengnu samþykki viðskiptaráðherra.

Við upphaf fundar viðskiptanefndar um málið, á milli fyrstu og annarrar þingumræðu þess á fimmtudagskvöldið og inn í nóttina, gerðu fulltrúar Seðlabankans nefndarmönnum ljóst að vilji bankans stæði til að ekki þyrfti samþykki ráðherrans fyrir reglunum. Var þeim sjónarmiðum hafnað. Tómas Örn Kristjánsson og Sigríður Logadóttir voru fulltrúar Seðlabankans á fundinum.

Auk þeirra komu fyrir nefndina starfsmenn viðskiptaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins, fulltrúar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins og hagfræðingar ríkisbankanna þriggja. Málið mætti einarðri andstöðu bankamannanna og fulltrúa vinnumarkaðarins.

Ósk nefndarmanna úr minnihlutanum um að fleiri hagfræðingar auk umsvifamikilla útflytjenda og lántakenda kæmu á fundinn var hafnað. Tímaskorti var borið við.

Í allri málsmeðferðinni var þinginu stillt upp við vegg. Því var ekki veitt svigrúm til að afla sjálfstæðra álita eða taka upplýsta afstöðu til málsins. Í því ljósi sat stjórnarandstaðan hjá við atkvæðagreiðsluna, rétt undir klukkan fimm um nóttina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×