Innlent

ESB skoðar upptöku íslenska kvótakerfisins

Framseljanlegir aflakvótar líkt og þekkjast hér á landi eru á meðal þeirra hugmynda sem nú eru skoðaðar innan Evrópusambandsins.

Vinnuhópur, sem kynnti drög sín fyrir skömmu, leggur til að róttækar breytingar verði gerðar á fiskveiðistjórnunarstefnu ESB þegar hún kemur til endurskoðunar árið 2012.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að tímaritið Fishing News greini frá því nýverið að samkvæmt tillögum vinnuhópsins muni hugsanlegt kvótakerfi einskorðast við veiðisvæði utan 12 mílna lögsögu en innan hennar stjórni hvert aðildarríki veiðum samkvæmt eigin reglum. Í tímaritinu kemur fram skýr andstaða breskra sjómanna við þessar hugmyndir. Þeir óttist t.d. mjög ásókn spænskra togara á sín mið verði af þessum breytingum.

Ítrekuð gagnrýni hefur komið fram á fiskiveiðistjórnunarstefnu ESB. Stutt er síðan Joe Borg, fiskimálastjóri ESB, kallaði eftir gagngerri endurskoðun á stefnunni. Á meðal þeirra röksemda, sem beitt er af hálfu vinnuhópsins, er að með framseljanlegum aflakvótum hafi sjómenn beinan hag af því að ganga af ábyrgð um auðlindina í hafinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×