Innlent

Taka tónlistarhúsið líklega yfir

Tónlistarhúsið má ekki verða minnisvarði um eitthvað sem ekki varð. Ríkið og borgin taka það líklegast yfir.
Tónlistarhúsið má ekki verða minnisvarði um eitthvað sem ekki varð. Ríkið og borgin taka það líklegast yfir.

Líkur eru á að Austurhöfn, félag í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, taki yfir byggingu tónlistarhússins. Portus, sem ætlaði að byggja og reka húsið, er komið í þrot og mun ekki koma frekar að málinu.

Júlíus Vífill Ingvarsson, sem situr í stjórn Austurhafnar, segir viðræður standa yfir milli Austurhafnar, Íslenskra aðalverktaka, stærsta verktakans sem kemur að byggingunni, og Landsbankans, aðaleiganda Portus. Allra leiða sé leitað til að ekki þurfi að koma til stöðvunar framkvæmda. „Það er mikið í húfi fyrir alla að framkvæmdir stöðvist ekki. Það er svo dýrt. Við viljum halda uppi atvinnustigi eins og kostur er. Fyrir utan að við viljum ekki skilja þetta hálfbyggða hús þarna eftir, sem minnisvarða um eitthvað sem ekki varð.“ Ljóst sé þó að verkið muni dragast og húsið verði ekki tilbúið í desember 2009, eins og upphaflega var lagt upp með.

Talið er að það muni kosta níu til tíu milljarða króna að ljúka byggingu hússins. Ríkið og Reykjavíkurborg áttu að leggja 600 milljónir árlega í rekstur hússins í 35 ár. Júlíus Vífill segir leitast við að breyta aðkomu Austurhafnar að verkefninu þannig, að skuldbindingarnar verði ekki meiri þegar upp er staðið heldur en áður var lagt upp með. Þær verði hins vegar með breyttu sniði og beinu eignarhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×