Fótbolti

Sigur fyrir fótboltann

Elvar Geir Magnússon skrifar
Casillas með Evrópubikarinn.
Casillas með Evrópubikarinn.

Cesc Fabregas, miðjumaður spænska landsliðsins, segir að sigurinn í kvöld sé hiklaust stærsta stund hans á fótboltaferlinum. Þá segir hann að sigur Spánar sé sigur fyrir fótboltann.

Þessi 21. árs leikmaður lék í rúmlega klukkutíma í kvöld áður en hann var tekinn af velli fyrir Xabi Alonso.

„Ég held að við höfum ekki áttað okkur enn almennilega á því hvað við höfum afrekað. Þetta er besta tilfinning sem hægt er að finna og einn stærsti bikar sem hægt er að vinna. Þetta er eitthvað sem maður hefur alltaf dreymt um," sagði Fabregas.

„Við spilum fallegan fótbolta. Við látum boltann ganga milli manna á jörðinni, sköpum mörg færi og skemmtum áhorfendum. Því miður er ekki oft sem svona lið vinna titla. Loksins hefur fótboltinn fengið það sem hann átti skilið."

„Við erum með mjög ungt lið og vonandi getum við gert atlögu að heimsmeistaratitlinum eftir tvö ár," sagði Fabregas.

Iker Casillas, markvörður og fyrirliði Spánar, var að vonum ánægður. „Tilfinningin er ólýsanleg. Maður er að afreka það sem maður hugsaði um sem krakki. Það reyndi minna á mig en ég bjóst við í þessum leik. Maður veit það samt alltaf að Þjóðverjar eru til alls líklegir svo einbeitingin var alltaf til staðar," sagði Casillas.

„Margir töluðu um það fyrir mótið að sama hve gott lið við værum með þá hefðum við ekki það sem þarf til að vinna mótið. Það gerði það að verkum að við vorum enn ákveðnari að vinna sigur í kvöld."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×