Innlent

Gagnrýnir Kínaför forseta harðlega

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Sveinn Magnússon
Sveinn Magnússon
„Hann á bara að segja nei takk nema hann ætli að nota tækifærið og berja í borðið," segir Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Hann er ósáttur við að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hafi þegið boð um að vera viðstaddur Ólympíuleikana í Peking. Og engu hrifnari af því ef Þorgerður Katrínar Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fer í opinberum erindagjörðum á leikana. „Þetta er köld vatnsgusa framan í fólk að sjálfstæðismenn skuli sína þennan tvískinnungshátt," segir Sveinn.

Yfirskrift leikanna þetta árið er „Einn heimur, einn draumur". Sá draumur er þó líklega ekki allra. Á opinberri heimasíðu leikanna eru skilyrði fyrir vegabréfsáritun til Kína tíunduð. Þar eru væntanlegir gestir leikanna vinsamlegast beðnir að vera vissir um að þeir lendi ekki í eftirfarandi; geðsjúkdómum, eyðni, kynsjúkdómum, eða farsóttum á borð við berkla. Að öðrum kosti geti þeim verið meinaður aðgangur að landinu.

„Í Kína, líkt og í Sovétríkjunum sálugu, vill það brenna við að menn séu settir á geðsjúkrahús vegna pólitískra skoðana," segir Sveinn. „Þetta er ákveðið verkfæri í höndum valdhafa."

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Ólafi að vænlegasta leiðin til að styrkja mannréttindi og lýðræðisþróun í Kína sé að eiga jákvæðar viðræður við ráðamenn þar og sýna þeim virðingu. „Það er ekki hægt að sýna fólki sem brýtur mannréttindi virðingu," segir Sveinn. „Ólafur telur sig vera forseta allra Íslendinga. Hér er ákveðinn hópur sem á við geðsjúkdóma að stríða og ætti þar af leiðandi ekki möguleika á því að fara á leikana. Hvaða virðingu er verið að sýna þeim?"

Sveinn vill að Ólafur og Þorgerður nýti tækifærið í ferðinni, og komi á framfæri mótmælum við valdhafa í Kína vegna mannréttindabrota þar í landi. Hann tekur fram að þessi sjónarmið séu hans eigin, en byggist á tilgangi og markmiðum Geðhjálpar. Stjórn félagsins hafi ekki ályktað um málið, en hann muni þó kalla eftir afstöðu hennar á næsta fundi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×