Lífið

Húsið ruggaði fram og tilbaka, segir Kolbrún sem býr í Peking

Kolbrún hafði áhyggjur af kínverskri vinkonu sinni sem hún kynntist í Peking.
Kolbrún hafði áhyggjur af kínverskri vinkonu sinni sem hún kynntist í Peking.

 

"Ég náttúrulega hafði ekkert heyrt af þessum skjálfta og var ekki alveg viss hvað var í gangi. Hélt fyrst að það væri að líða yfir mig því ég ruggaði öll til. Svo stóð ég upp og þá ruggaði allt húsið fram og til baka eins og einhverjir væru að ýta því á milli sín," svarar Kolbrún Ólafsdóttir nemi við Pekingháskólann í Kína aðspurð um jarðskjálftann í morgun en hún var stödd á 16. hæð í íbúðinni sem hún leigir í Peking þegar skjálftinn reið yfir.

"Jú jú ég er í góðu lagi. Ég var smá sjokkeruð svona eftir á en það er liðið hjá. Það var svolítið óhuggulegt þegar þetta var að gerast þá velti ég því alveg fyrir mér hvort þetta 20 hæða hús myndi hrynja með mér innan í. Systir mín og mágur voru að fara í dag frá mér. Flugið þeirra var á sama tíma og skjálftinn leið yfir og svo er ég auðvitað búin að heyra í mömmu og pabba."

"Fréttirnar komu frekar seint hérna í Kína og ég var búin að lesa um skjálftann á fréttasíðunum heima áður en ég heyrði fréttir af honum hérna. Þarna fann ég í fyrsta skipti fyrir því að skilja ekki kínversku almennilega því ég gat hvorki fylgst með kínverskum fréttasíðum né sjónvarpsstöðvum. Ég er að bíða eftir að heyra í vinkonu minni sem er að hjálpa mér í kínversku en hún fór í frí heim til foreldra sinna í Sichuan en það er héraðið þar sem skjálftinn átti upptök sín. Ég er svolítið stressuð yfir að heyra ekkert í henni en það hefur einnig komið fram að símakerfið er í lamasessi þarna um slóðir."

Að sögn Kolbrúnar er fyrrnefnd kínverska vinkona hennar heil á húfi. "Fjölskyldan hennar er mjög skelkuð og þau þora varla inn í hús af ótta við eftirskjálfta," sagði Kolbrún þegar Visir hafði aftur samband við hana í dag klukkan 15:40.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.