Innlent

Leiðir um aðstoð á leiðinni

Leiðir til að aðstoða lántekendur vegna verðtryggingar ættu að liggja fyrir í næstu viku samkvæmt félagsmálaráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra skipaði þann 27. október fimm manna sérfræðingahóp til að skoða og hvort og þá hvaða leiðir séu færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar og fer Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands fyrir hópnum.

Heimilin í landinu skulda nú um 1400 milljarða króna í verðtryggðum lánum og hafa skuldir hækkað um tugi milljarða eftir hrun bankanna og aukna verðbólgu.

Krónulánin eru tífalt hærri en gengislánin, en þau eru um 150 milljarðar króna. Ríkisstjórnin brást skjótt við vanda þeirra sem eru með gengislán og beindi þeim tilmælum til ríkisbankanna að frysta afborganir skuldara af myntkörfulánum, hvernig tekið verður á vanda þeirra sem skulda í verðtryggðum íslenskum lánum er ennþá óljóst, en gæti skýrst í næstu viku, miðað við orð félagsmálaráðherra.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×