Innlent

Heildarafli fiskiskipa dregst saman á milli ára

Heildarafli íslenskra fiskiskipa reyndist um 91.400 tonn í nýliðnum október eftir því sem fram kemur á vef Fiskistofu. Það er tæplega sjö þúsund tonnum minni afli en í október 2007 en þá var aflinn 98.100 tonn.

Samdráttur í afla stafar af því að veiðar íslensku sumargotssíldarinnar fóru hægar af stað í ár en í fyrra. Einnig veiddist minna af norsk-íslensku síldinni í nýliðnum október en í október 2007.

Alls reyndist botnfiskaflinn um 41 þúsund tonn í október síðastliðnum en var tæp 38 þúsund tonn í sama mánuði í fyrra. Uppsjávaraflinn var hins vegar mun minni en á sama tíma en engin loðnuveiði var í október. Síldaraflinn dróst svo saman um rúmlega 10 þúsund tonn eins og áður sagði.

Það sem af er ári hafa íslensk fiskiskip veitt tæplega 1,1 milljón tonna af fiski en á sama tíma í fyrra var aflinn um hundrað þúsund tonnum meiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×