Íslenski boltinn

35 ára bið Keflvíkinga á enda?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Keflvíkingar fagna marki í sumar.
Keflvíkingar fagna marki í sumar. Mynd/Víkurfréttir

Árið 1973 varð Keflavík Íslandsmeistari í þriðja sinn á fimm árum. Liðið tapaði ekki leik allt sumarið og gerði einungis tvö jafntefli.

Á morgun geta Keflvíkingar bundið enda á 35 ára bið eftir næsta Íslandsmeistaratitli sínum ef liðið vinnur Fram á morgun - eða þá að FH vinnur ekki Fylki.

Fyrir 35 árum voru átta lið í efstu deild en þau eru nú tólf. Keflvíkingar skoruðu næstflest mörk allra liða í deildinni, 33, en fengu á sig fæst - níu talsins.

Guðni Kjartansson var lykilmaður í hópi Keflvíkinga þetta árið og var hann í kjölfarið útnefndur Íþróttamaður ársins. Aðeins sex knattspyrnumenn í íþróttasögunni hafa hlotið þann heiður og er því Guðni í hópi með ekki ómerkari mönnum en Ásgeiri Sigurvinssyni, Jóhannesi Eðvaldssyni, Arnóri og Eiði Smára Guðjohnsen og Margréti Láru Viðarsdóttur.

Guðni verður þó ekki á vellinum í Keflavík á morgun þar sem hann er staddur í Frakklandi. Hann er aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem leikur á morgun mikilvægasta leik sögunnar gegn heimamönnum. En Guðni mun sjálfsagt fylgjast vel með þróun mála í Keflavík á morgun.




Tengdar fréttir

Spilla Fylkismenn titilvonum FH eins og 1989?

Fyrir lokaumferðina í Íslandsmótinu sumarið 1989 var FH á toppi deildarinnar með eins stigs forystu á KA. FH-ingar þurftu aðeins að vinna sigur á Fylki í lokaumferðinni til að verða Íslandsmeistarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×