Innlent

Tvær stúlkur til viðbótar íhuga að kæra prestinn

Íbúar á Selfossi eru slegnir yfir fréttum af því að sóknarpresturinn hafi verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn unglingsstúlkum. Samkvæmt heimildum fréttastofu íhuga tvær stúlkur til viðbótar að kæra prestinn fyrir kynferðisbrot.

Það var séra Eiríkur Jóhannesson prestur í Hruna sem sá um að messa í Selfosskirkju í dag. Við sögðum frá í fréttum okkar í gær að sóknarpresturinn á staðnum Gunnar Björnsson óskaði eftir lausn frá störfum eftir að hann var kærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur unglingsstúlkum. Kærurnar bárust fyrrihluta síðustu viku og óskaði Gunnar eftir því að láta af störfum á fimmtudaginn og var veitt það um leið.

Það var um mánaðarmótin mars apríl sem að foreldrar annarrar stúlkunnar höfðu samband við formann sóknanefndarinnar á staðnum vegna málsins. Stúlkan sem er sextán ára hefur verið virk í kórstarfi kirkjunnar. Sóknarnefndarformaðurinn vísaði foreldunum á Biskupstofu. Eftir að málið barst inn til Biskupsstofu fór ákveðið ferli í gang en til er sérstakt fagráð um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar og var málinu strax vísað þangað. Fulltrúi ráðsins fór á Selfoss til að kanna málið og að þeirri athugun lokinni vísaði Fagráðið málinu til Barnaverndarnefndar sem svo aftur hafði samband við lögregluna.

Sem fyrr segir er Gunnar kærður fyrir brot gegn tveimur stúlkum en báðar hafa þær verið virkar í kórstarfi kirkjunnar. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að brotin nái yfir nokkuð langt tímabil og að tvær stúlkur til viðbótar íhugi að leggja fram kærur á hendur Gunnari fyrir kynferðisbrot. Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir að skýrslur verði teknar af stúlkunum strax eftir helgi.

Íbúum á Selfossi var flestum mjög brugðið við fréttirnar en Gunnar hefur almennt verið vel liðinn meðal þeirra. Eysteinn Óskar Jónasson formaður sóknarnefndarinnar á staðnum segir íbúana mjög slegna enda hafi fæstir þeirra vitað af málinu áður en fréttir af því birtust í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.