Innlent

Norðurál vill byggja stærra í Helguvík

Norðurál hefur kynnt stjórnvöldum ósk um að álverið í Helguvík verði fjörutíu prósentum stærra en áður var áformað. Líklegt þykir að málið geti leitt til harðra átaka innan Samfylkingarinnar.

Framkvæmdir við undirstöður kerskálanna hófust fyrir tveimur mánuðum en eftir að fjármálakreppan reið yfir ákváðu Norðurálsmenn að endurskoða verkefnið. Þeir hafa nú lagt fram nýja verkáætlun sem felur í sér að endanleg stærð álversins verði ekki 250 þúsund tonn heldur 360 þúsund tonn, sem þýðir nýtt umhverfismat.

Álverið yrði byggt upp í fjórum níutíu þúsund tonna áföngum, fyrsti áfanginn gangsettur árið 2011 og uppbyggingunni dreift fram til ársins 2014. Norðurálsmenn telja að með þessu náist hagkvæmari stærð, sem auðveldi lánsfjármögnun.

Sexhundruð megavatta raforkuþörf kallar á aðkomu allra stóru orkufyrirtækjanna; Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, með virkjunum á Reykjanesskaga, Hellisheiði og að öllum líkindum neðri Þjórsá, en einnig er nefndur sá kostur að Landsvirkjun haldi áfram sínu striki fyrir norðan með gufuaflsvirkjunum í Þingeyjarsýslum og flytji orkuna tímabundið suður. Iðnaðarráðherra segir málið hafa verið rætt meðal ráðherra, svo sem á milli sín og fjármálaráðherra og kveðst einnig hafa kynnt það í þingflokki Samfylkingarinnar.

Þau rök eru færð með verkefninu að það þýði þrjú til fimm þúsund störf á framkvæmdatíma og tólf til átján hundruð varanleg störf, og fjárfestingu upp á 1,8 milljarða dollara, sem er svipað og lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Menn gefa sér hins vegar að áformin veki litla hrifningu umhverfisráðherra og náttúruverndarsamtaka, og muni leiða til átaka innan Samfylkingarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×