Innlent

Færri fjárlagaliðir fram úr heimildum

MYND/E.Ól

106 fjárlagaliðir höfðu farið meira en fjögur prósent umfram fjárheimildir eftir fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt nýbirtu uppgjöri ríkissjóðsins fyrir tímabilið. Vitnað er til þess í vefriti fjármálaráðuneytisins. Þar kemur einnig fram að þetta sé fækkun frá sama tíma í fyrra þegar 116 fjárlagaliðir voru með meiri halla en sem nam fjögur prósent af heimildum.

Fram kemur í vefritinu að heildagjöld ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins hafi numið um 319 milljörðum króna sem er um fjórum milljörðum króna minna en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Rekstur ríkisstofnana er 468 milljónum króna yfir fjárheimildum og er heildarkostnaður við þær um 145 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Ýmsir styrkir og bótagreiðslur námu 133 milljörðum á þessum tíma og voru um fjórum milljörðum yfir heimildum. Munar þar mestu að útgjöld til lífeyristrygginga hafa verið meiri en gert var ráð fyrir.

Útgjöld til viðhalds- og stofnkostnaðar nema um 27 milljörðum króna og eru rúmlega tíu milljörðum króna innan ramma. Þá eru vaxtagjöld ríkissjóðs 2,3 milljörðum yfir áætlun og námu nærri 14 milljörðum króna á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×